Stafrænn minimalismi

Tileinkum okkur stafrænan minimalisma í meira mæli, fyrir jörðina, fjárhaginn og persónulega geðheilsu.

Myndin sýnir svan og hefur í raun engin tengsl við efni greinarinnar

Um daginn hlustaði ég á bókina Digital Minimalism eftir Cal Newport. Góð bók sem ég mæli með og fjallar um það hvernig síminn, samfélagsmiðlar og aðrar tæknilausnir hafa áhrif á okkur sem persónur og geðheilsuna. Ég tók áskorun Cal og ákvað að fara í 30 daga stafræna afvötnun. Afvötnunin gengur út á að eyða samfélagsmiðla-öppum af símanum og setja reglur hvað varðar sjónvarpsgláp, netflakk og annað sem við vitum að við erum að ofnota. Verandi hin dæmigerða miðaldra miðstéttarfrú með bleika fiðringinn (kvenkyns útgáfan af gráa fiðringnum) sem langar í hund, æfir úthaldsíþróttir, gengur á fjöll og er alltaf með of mikið að gera, hvort sem það er sjálfsprottin misskilningur eða raunveruleiki, þá voru samfélagsmiðlarnir sem ég eyddi af símanum mínum Facebook, Instagram og LinkdIn. Twitter spilar ekki stórt hlutverk í mínu lífi og ég hef ekki komist uppá lagið með TikTok nema til að njósna um börnin mín. Ég er að taka nokkuð stóra áhættu í því að missa af boðum í 50 ára afmæli á Facebook, en minn árgangur er einmitt að fagna þeirri gleði þetta árið. Þessum 30 dögum er lokið 9. ágúst nk. og ég er ekki alveg búin að ákveða hvað ég geri þá, hugsanlega sting ég mér á bólakaf aftur. En þetta er skemmtilegt verkefni sem ég mæli með fyrir alla án þess að ég sé trúboði þess að nota ekki tækni í lífinu. Þvert á móti hvet ég til notkunar tæknilausna til að gera lífið betra en látum tæknina ekki taka stjórnina. En þessi pistill fjallar ekki um þess konar stafrænan minimalisma sem bókin hans Cal Newport fjallar um. Hann fjallar um annað og mikilvægara mál, áhrif stafrænnar þróunar á umhverfið, kolefnisfótspor tækninnar. Þetta spor er stórt og fer ört stækkandi. Það sem telst til kolefnisspors tækninnar er í stórum dráttum:

  • Búnaður: tölvur, símar, internet hlutanna búnaður (IoT) s.s. úr, nemar og mælitæki, búnaður gagnavera s.s. diskastæður, kælibúnaður, skápar, kaplar, UPS batterí o.fl. Neikvæð umhverfisáhrif búnaðar spannar allt frá framleiðslu að urðun og er þetta stærsti þátturinn í kolefnislosun tækni.
  • Orka: raforkan sem þarf til að hlaða allt saman, halda öllu keyrandi í gagnaverum á vinnustöðum og á heimilunum.
  • Hugbúnaður og gögn: það þarf pláss á diskastæðum til að keyra allan þennan hugbúnað og geyma öll þau gögn sem við erum stöðugt að framleiða og neyta.

4% og vaxandi

Í dag er áætlað að um 4% af heildarkolefnisfótspori okkar komi frá upplýsingatækni- og samskiptageiranum (UTS). Til samanburðar er heildar kolefnisspor flugbransans 2%. Sjokkerandi staðreynd er að í dag eru neikvæð áhrif UTS tvöfalt á við flugið! Og þetta mun vaxa. Í rannsókn sem gerð var árið 2018 voru áætlanir um að hlutfallið yrði komið í 14% á árinu 2040. Með aukinni notkun og útbreiðslu gervigreindar má reikna með að þetta hlutfall vaxi töluvert hraðar því til að þróa gervigreind þarf mikið magn af orku, reiknigetu og gögnum. Sem dæmi má taka að til að þjálfa tauganetið sem liggur til grundvallar þriðju útgáfu ChatGPT þurfti reiknigetu og orkunotkun sem losaði álíka mikið af kolefni og fimm meðal bílar út líftíma þeirra, frá framleiðslu að urðun. Ég hef ekki enn fundið upplýsingar um hversu mörg tauganet hafi verið þjálfuð fyrir gervigreindarlausnir hingað til, en þau eru mörg. Ég óska sérstaklega eftir upplýsingum um þennan fjölda ef einhver þekkir.

Tækifærin

Þess ber þó að geta að það eru mýmörg tækifæri sem liggja í því að hagnýta tæknilausnir til að hafa góð áhrif á umhverfið. T.d.

  • IoT tækni og búnaður til að vega og meta áhrif hlýnunar,
  • uppbygging svokallaðra stafræna tvíbura til að leggja mat á áhrif ýmissa breyta á umhverfið,
  • hugbúnaður sem leysir af kolefnisfreka ferla
  • gagnagreiningar og gervigreind til að greina stöðuna og jafnvel aðstoða okkur með hugmyndir að úrlausnum

Við sem einstaklingar getum vissumlega tekið meiri ábyrgð í okkar stafrænu neyslu. Við getum eytt gömlum gögnum og öppum, tekið færri myndir, skráð okkur af ónauðsynlegum póstlistum, sætt okkur við gamla símann og gömlu tölvuna í nokkur ár í viðbót og fleira. Þessar aðgerðir geta haft margvísleg jákvæð áhrif á líf okkar önnur en bara að minnka okkar stafræna kolefnisfótspor, t.d. gætum við uppskorið meiri einbeitingu þegar við erum laus við stafrænu óreiðuna og jafnvel sparað pening með því að hreinsa til í áskriftum og öppum.

Fyrirtæki og stofnanir

Ábyrgðin er mun meiri þar en hjá einstaklingnum.

Fyrirtæki elska gögn. Það er ekki til betri tilfinning en að eiga áreiðanleg gæðagögn til að byggja sínar ákvarðanir á og veita upplýsingar til sinna hagaðila. Gögn liggja líka til grundvallar allra þeirra ofur-svölu gervigreindarlausna sem fyrirtæki og stofnanir vilja nýta og státa sig af. En það kostar bæði fjármuni og losun kolefnis að geyma gögn því þau eru geymd á diskastæðum og þurfa reiknigetu og rafmagn til að vera aðgengileg. Spyrjum okkur hvort við séum að safna einhverju sem ekki skiptir máli fyrir reksturinn og höfum það hugfast að gæði þeirra gagna sem við söfnum er í beinu samhengi við gæði þeirra upplýsinga sem við tökum út. Vert er að huga að því að setja fyrirtækinu skýra gagnastefnu.

Fyrirtæki elska tölvukerfi. Tölvukerfin gera okkur kleift að vinna vinnuna okkar, vinna með gögnin okkar, hafa samskipti hvort við annað og við önnur fyrirtæki. En höfum í huga að tölvukerfi taka upp pláss í tækniumhverfinu og þurfa reiknigetu og rafmagn. Spyrjum okkur þeirra spurningar hvort við séum með nokkur kerfi sem leysa sama hlutinn, hversu mikið af okkar kerfum eru hreinlega orðin úreld og leynist jafnvel eitthvað kerfi þarna sem er ekki verið að nota?

Ský. Það getur verið gott skref að færa hluta af tæknirekstrarumhverfinu í ský, þar geta legið hagræðingartækifæri og jafnvel minna kolefnisspor vegna samnýtingar tækniinnviða. Þetta á bæði við um hugbúnað sem þjónustu (SaaS) og tækniinnviði sem þjónustu (PaaS og IaaS). Vert er að minnast á  að íslensk gagnaver búa svo vel að geta að lang mestu leyti rekið sín gagnaver á endurnýjanlegri orku. Það sama á ekki við um erlend gagnaver sem þurfa oft að sækja sína orku til óumhverfisvænna orkugjafa. Í skýjavæðingu skal huga að því að þau sem selja skýjaþjónustur auka tekjur sínar með auknum gögnum því yfirleitt er tekjumódelið miðað við stærð tækniumhverfisins. Stöldrum því við og göngum hægt og skipulega til skýjanna.

Búnaður. Tæknibúnaður sem fyrirtæki nýta í sínum rekstri eru notendabúnaður s.s. tölvur, símar, spjaldtölvur, fundabúnaður, prentarar, netkerfi og í einhverjum tilfellum diskastæður og annar búnaður til reksturs vélasals. Stærsta hluti þessa 4% kolefnisfótspors tækni kemur til vegna framleiðslu og urðunnar á tæknibúnaði svo hér er um að gera að setja sér sterkar sjálfbærnistefnur hvað þetta varðar.

Betur má ef duga skal

Umræða um sjálfbærni á sviði stafrænnar þróunar fer vaxandi og vitundarvakningin er að aukast, en betur má ef duga skal því gervigreindin er búin að kenna sér að forrita og getur framleitt hugbúnað á ógnarhraða og daglega framleiðum og söfnum við um 329 milljón TB af gögnum og kaupum 4,14 milljón farsíma svo eitthvað sé nefnt. Stöldrum við, göngum fram af hógværð, setjum okkur skýra stefnu og hefjumst handa við að iðka ábyrga stafræna þróun til framtíðar. Tileinkum okkur stafrænan minimalisma í meira mæli.

Birtist í umræðum á Innherja Vísis 23. júlí 2023 – og umfjöllun í bítinu á Bylgjunni 25. júlí 2023