Jákvæðir vinnustaðir

Hagnýting jákvæðrar sálfræði í atvinnulífinu

Myndin sýnir hamingjusama starfskonu sem nýtir hæfni sýna til fullnustu í sköpun

125% minni líkur á kulnun, 51% minni starfsmannavelta, 66% færri veikindadagar, 43% meiri framleiðni, 300% meiri nýsköpun, 37% meiri sala 50% færri öryggisatvik, 33% meiri hagnaður. (https://www.positivepsych.edu.sg/global-happiness-policy-report/) Þetta er tölfræði sem sýnir áhrif hagnýtingar jákvæðrar sálfræði á vinnustöðum. Það getur þess vegna borgað sig margfalt að hlúa vel að sínu starfsfólki.

Það eru fimm undirstöðuatriði sem eru grunnurinn að velsæld okkar; tengsl við aðra, sjálfræði, hæfni, jákvætt umhverfi og tilgangur. Inni á vinnustað er mikilvægt að hlúa að þessum undirstöðuatriðum.

Tengsl við annað fólk er eitt af því mikilvægasta þegar kemur að hamingju okkar og velsæld. Góð tengsl inni á vinnustaðnum eru þess vegna eitt það mikilvægasta. Oft þarf ekki mikið til að efla tengsl á vinnustöðum. Smáatriði í samskiptum eins og líkamstjáning, tónninn í röddinni og full athygli á viðmælandann getur skipt sköpum.

Sjálfræði er sú tilfinning að við höfum eitthvað um það að segja hvað við gerum. Gott er að stjórnandinn sé meðvitaður um þetta og tileinki sér stjórnunaraðferðir sem stuðla að sjálfræði. Til dæmis að fá teymið að ákvarðanatöku og í hugmyndavinnu, gefa fólki val um hvað það gerir og hvernig, hjálpa fólki að sjá að það sem það gerir skiptir máli og að gefa fólki uppbyggjandi endurgjöf á störfin. Ofstjórnun (e. micro management) vinnur gegn sjálfræði starfsfólks og ættu stjórnendur alfarið að forðast hana.

Fólki líður vel þegar það fær tækifæri til að gera það sem það gerir vel, að nýta hæfni sína á sem bestan máta. Vinnustaðir geta stutt fólk í þessu með því t.d. að vinna með styrkleika fólks og rækta gróskuhugarfar. Til eru margar leiðir til að greina styrkleika og vinna með þá og gróskuhugarfarið má efla með hvatningu til að læra eitthvað nýtt og gefa svigrúm til nýsköpunar.

Umhverfi vinnunnar skiptir miklu máli fyrir vellíðan starfsfólks. Hér er ekki eingöngu átt við innviði skrifstofubyggingarinnar, þó þeir skipti líka máli, heldur líka starfsumhverfi. Þ.e. að starfsfólk upplifi sig öruggt, geti tjáð tilfinningar og skoðanir án þess að vera dæmt eða lenda í vandræðum.

Ef starfsfólk upplifir mikinn tilgang með störfum sínum hefur það sýnt sig að það upplifi aukna hamingju og velsæld í starfi. Tilgangurinn getur annað hvort verið að fólk upplifi persónulegan tilgang eða að fyrirtækið sé með góðan og nýtan tilgang með starfsemi sinni í heild.  

Hlutverk leiðtogans í þróun jákvæðra vinnustaða er mikið. Gott er fyrir leiðtogann að byrja á því að hlúa vel að sjálfum sér, tileinka sér samkennd, þakklæti og velvild ásamt því að hvetja til uppbyggilegra og jákvæðra samskipta starfsfólks. Leiðtoginn er líka sá sem setur fram sýn fyrirtækisins og tilgang og tryggir að starfsfólk sé upplýst.

Við eyðum miklu af okkar tíma í að sinna þeim störfum sem við höfum valið okkur og störfin hafa þess vegna áhrif á stóran hluta af okkar lífi. Hlúi fyrirtækin að velsæld starfsfólks er aldrei að vita nema það smiti út frá sér og að heimurinn, og öll þau líf sem honum tilheyra, verði einfaldlega aðeins betri. Og til viðbótar við betri heim, sýnir það sig að viðskiptin og reksturinn ganga líka betur með velsældaraðgerðum, sem sé „win-win“ fyrir öll. Svo nú er um að gera fyrir fyrirtæki landsins að kynna sér betur þær aðferðir sem auka velsæld starfsfólks og hrinda í framkvæmd. Gangi okkur öllum vel.

Ef þið viljið vita meira þá studdist ég við þessar tvær bækur í þessari samantekt minni og mæli með:

Cameron, K. (2012). Positive Leadership. Berrett-Koehler Publishers, Inc.

Grenville-Cleave, B., Guðmundsdóttir, D., Huppert, F., King, V., Roffey, D., Roffey, S., & de Vries, M. (2021). Creating the World We Want to Live in. Routledge.