Stafrænir hlauparar

Skyndilausnir í stafrænni vegferð eru eins og að æfa eingöngu spretti, meiðslahætta og langdreginn bati.

Ég er langhlaupari. Af og til upplifi ég svokallað “runners high”. Tilfinningin er mögnuð, ég er létt eins og fjöður sem svífur um malbikið, þarf að hafa mig alla við til við að halda aftur af hraðanum, er með hálfgerða gæsahúð og þvílíkar hamingjuhugsanir og ég get ekki þurrkað brosið af vörunum. Ég hef líka upplifað “runners low”. Ætla ekki að lýsa þeim tilfinningum hér, en þær eru ekkert í líkingu við “runners high” lýsinguna hér að ofan.

Til þess að komast í það form sem gerir mér kleift að upplifa “runners high” þarf ég að æfa rétt. Ég þarf að byggja upp grunninn með löngum rólegum hlaupum í jafnvægi við sprett- og tempó æfingar. Rólegu æfingarnar eru á púls og geta verið mjög pirrandi, erfiðar fyrir egóið því þær eru svo hægar. En engu að síður eru þær nauðsynlegar því þær gefa líkamanum tækifæri til að byggja sig upp á meðan á æfingunni stendur.

Stafræn þróun getur þýtt svo margt. En fyrst og fremst skulum við skilgreina hana sem upplifun viðskiptavina í stafrænum lausnum, virðisaukandi þjónusta, sjálfvirkni í ferlum og hagnýtingu gagna. Í dag keppast fyrirtæki við að fjárfesta í verkefnum tengdum stafrænni þróun og móta sína stafrænu stefnu. Oftar en ekki á stafræna þróunin að leysa svo margt, vera hin svokallaða silfur-byssukúla. En höfum í huga að í stafrænni vegferð eru engar skyndilausnir heldur þarf að vinna markvisst í grunnstoðum tækniuppbyggingar samhliða því að þróa nýjar og spennandi lausnir. Mikið af stafrænum skyndilausnum gerir tækniumhverfið okkar viðkvæmt og dýrt í rekstri.  Hindrun í stafrænni þróun er oft á tíðum þau gömlu kerfi sem eru algjörlega krítísk fyrir starfsemina en bjóða ekki upp mikla sjálfvirkni í ferlum, aðgengi ganga eða sjálfsafgreiðslu nema með miklum tilkostnaði. Fleiri hindranir í árangursríkri stafrænni vegferð eru tækniarkítektúr sem ekki er sveigjanlegur og öruggur ásamt hegðun viðskiptavina og starfsmanna, sem þarf að breytast í takt við nýja tækni.

Ef við ætlum okkur á ná góðum árangri í stafrænni vegferð, sem er sjálfbær og sveigjanleg til framtíðar, verðum við að fjárfesta í tæknigrunninum okkar líkt og langhlauparinn sem þarf að æfa grunninn til að geta náð góðum árangri, bætingum og því forskoti sem er svo eftirsóknarvert í hlaupum. Að æfa bara sprettina skilar okkur ekki tilætluðum árangri og eykur bara líkurnar á meiðslum sem geta verið langdregin líkt og þau vandamál sem upp geta komið ef við nýtum okkur eingöngu skyndilausnir í stafrænni vegferð.