Að tala við sjálfa sig

Að tala við sjálfa sig hefur í gegnum tíðina verið álitið frekar skrítið

Hæ hæ, ég var að spá í að elda kjöt og hnetusteik með salati og sætum kartöflum á morgun, komist þið í mat?“, sagði ég við sjálfa mig á upptöku í símanum í gegnum Snapchat. Sendi þetta til krakkanna minna, stelpan var inní herbergi og ég vissi ekkert hvar strákarnir og kærustur þeirra voru niður komin. Ég sá fljótlega að þau höfðu öll séð upptökuna, en bara elsti strákurinn svaraði. Vissi ekkert hvort hin höfðu hlustað á skilaboðin eða bara opnað og svæpað framhjá. Ég mun auðvitað fá staðfestingu frá mínum hóp um það hvort þau koma í mat eða ekki, hringi í þau eða labba inní herbergin þeirra og spyr. En svo einfalt er það ekki alltaf í sambærilegum sjálfstals samskiptum. Þessi samskiptamáti er stór hluti samskipta unglinga og ungs fólks í dag og það getur verið ansi flókið að fá staðfestingu á viðbrögðum við þeim skilaboðum sem send eru út með þessum hætti.

Talið er að um 70 – 93% samskipta séu þau sem eru án orða, þ.e. augnsamband, staða líkama, líkamstjáning, svipbrigði, tónn raddar, fjárlægð eða nálægð við viðmælanda o.fl. Hlustun er einnig algjört grundvallaratriði í samskiptum, tvö eyru og einn munnur sem við ættum að nota í þeim hlutföllum og allt það. Með því að hafa samskipti með því að tala bara við sjálf okkur getum við alls ekki vitað hvort viðmælandi okkar hlustaði á það sem við höfðum að segja eða svæpaði framhjá, og 70 – 93% skilaboðanna eru aðeins óljós, þó við getum vissulega sýnt okkar eigin líkamstjáningu og svipbrigði í skilaboðunum þá getum við eðlilega ekki lesið í viðbrögð viðmælanda.

Þau okkar sem hafa verið kennarar og fyrirlesarar í fjarnámi, þekkja annað form af því að tala við sjálfa sig. Ég kenndi námskeið á háskólastigi á haustönn 21 og fyrirlestrarnir voru sumir eingöngu á netinu. Iðulega voru allir nemendur með slökkt á myndavélinni sinni, og tjáðu sig lítið sem ekkert. Þ.a. ekkert var á skjánum mínum nema ég sjálf að tala (við sjálfa mig), því ég hafði jú kveikt á myndavélinni, og glærurnar mínar.

Hvernig áhrif mun allt þetta sjálfstal hafa á okkur til framtíðar? Verðum við sjálfhverfari? Missum við eiginleikann til að setja okkur í spor annarra, þroska og þjálfa tilfinningagreindina okkar? Hættum við að hlusta nema á það sem við viljum – og mun það þá mynda nokkurs konar bergmálshólf (e. echo chamber) í okkar lífi og gera okkur vanhæfari um að hugsa og taka vel rökstuddar ákvarðanir út frá fleiri en einu sjónarhorni? Eða mun þetta gera okkur enn betur í stakk búin að tjá allar okkar tilfinningar? Gefur þetta form okkur möguleika á fjölbreyttari samskiptaleiðum? Gerir þetta okkur auðveldara fyrir að nálgast annað fólk?

Ég er svolítið gamaldags, má það af því ég er á miðjum aldri, og held að samskipti augliti til auglits færi okkur meiri og betri fullnægju í þetta líf að það þroski okkur og þrói. Þ.a. með þessum hugleiðingum langar mig til að hvetja okkur öll til að mæla okkur mót við viðmælanda okkar, hitta viðkomandi augliti til auglits, nota alla okkar líkamstjáningu og fylgjast með viðbrögðum í rauntíma og umfram allt að hlusta.