Fjölskyldufaðirinn

Vinnufyrirkomulag framtíðarinnar mun breytast. Fyrirtæki munu í meira mæli leita utanaðkomandi sérfræðinga til úrlausna verkefna sem eru ekki hluti af kjarnastarfseminni.

Pípulagnirnar undir eldhúsvaskinum bila. Þetta er ekki stór bilun og í raun getur fjölskyldufaðirinn lagað þetta sjálfur, hann gerir það kannski ekki eins fagmannlega og píparinn, en hann getur reddað málum.

En svo þegar heim er komið eftir vinnudaginn er í svo mörg horn að líta að pípulagningin dettur ósjálfrátt aftar á listann. Það þarf að elda matinn, gefa krakkaskaranum að borða, láta lesa, hjálpa með stærðfræði, setja í þvottavél, brjóta saman þvottinn og ganga frá honum, ganga frá eftir matinn, lesa fyrir börnin og knúsa þau áður en þau sofna, knúsa konuna. Og svo eru það önnur verkefni eins og að fara yfir bókhald heimilisins, taka til í geymslunni, festa gólflistana sem búnir eru að bíða í fjóra mánuði.

Kannski byrjar fjölskyldufaðirinn að laga pípulögnina undir vaskinum, en hann vantar eitthvert stykki og nær ekki að klára. Verkefnið ílengist, veldur pirringi og virkilegum óþægindum í eldamennsku og hreinlæti eldhússins. Væri ekki betra að fá hreinlega pípara? Píparinn er snöggur, hann mætir með alla varahluti sem þarf til verksins. Hann gerir bara þetta og heldur fókus á því þar til yfir lýkur. Það þarf ekki að bjóða píparanum húsaskjól, hann þarf ekki að gistingu, hann sér sjálfur um að fá sér að borða. Hann bara kemur, vinnur, fer. Fjölskyldufaðirinn getur einbeitt sér að sinni kjarnastarfsemi á meðan, fjölskyldunni.

Kjarnastarfsemi og vistkerfin

Á þessum viðkvæmu tímum sem nú fara um hönd eru fyrirtæki meira farin að einbeita sér að sinni kjarnastarfsemi. Þau setja fókusinn á það sem þau eru best í og hlúa að sínum starfsmönnum svo þeir geti veitt bestu þjónustuna, framleitt bestu vöruna eða skapað bestu upplifunina fyrir viðskiptavinina. Ekki er gott að vera með fókusinn á of mörgum stöðum og hafa þannig í of mörg horn að líta í rekstrinum.

Vinnufyrirkomulag framtíðarinnar verður verulega breytt héðan í frá. Hvaðan vinnan er framkvæmd, hvernig og af hverjum er breytt og mun breytast áfram. Fyrirtæki og stofnanir munu leita meira í vistkerfi  (ecosystem/gig economy) sérfræðinga til úrlausna verkefna sem eru ekki alveg hluti af kjarnastarfseminni en þarf samt að klára. Við höfum mörg unnið meira heima undanfarið og sjáum að þó að samvistir séu mikilvægar og góðar innan veggja fyrirtækjanna þá eru þær ekki alltaf nauðsynlegar til að ná árangri. Og með sameinuðum kröftum er hvert og eitt okkar brot af heildar árangri. Kraftana getum við virkjað hvar og hvenær sem er.

Hið stafræna vistkerfi er líka vel þekkt. Þar er um að ræða dreift, nokkuð opið og oftast öruggt tækniumhverfi þar sem tækniþjónustur, skýjalausnir, hugbúnaður og fleira „tala saman“ og skapa aukið virði. Þetta eru skalanleg, skapandi og að einhverju leyti sjálfbær umhverfi.

Dæmi um slíkt er það hvernig Creditinfo sækir skuldastöðu og gögn einstaklinga og fyrirtækja og metur lánshæfismat og hvernig Meniga sækir gögn til bankanna og býður notendum yfirsýn yfir heimilisbókhald og selur svo neyslugögn til fyrirtækja með Markaðsvaktinni. Annað mjög stórt stafrænt vistkerfi er Atlassian hugbúnaðarfyrirtækið, þar sem margir minni aðilar hafa þróað hugbúnað ofan á kjarnavörur Atlassian til að auka notkunarmöguleika.

Breytingar á óvissutímum

Í miðjum alheims hryllingi og mesta atvinnuleysi sem mælst hefur í langan tíma fylltist ég hugrekki og dirfsku. Ég sagði upp mjög flottu, spennandi og krefjandi starfi, stökk út í úfinn óvissu-sjóinn og stofnaði mitt eigið ráðgjafafyrirtæki á sviði upplýsingatækni, Fractal ráðgjöf ehf. Pínu galið og vissulega var ekki um skyndiákvörðun að ræða, margar breytur höfðu þarna áhrif. Ein breytan var draumur um að stofna fyrirtæki og vera minn eigin herra eða eins og ég myndi frekar vilja orða það: mín eigin frú! Nafnið á fyrirtækinu mínu, Fractal ráðgjöf, vísar fyrst og fremst til þess að sú ráðgjöf sem veitt er undir merkjum fyrirtækisins er brot (e. fractal) af heildar árangri. Mikilvægt brot engu að síður. Seinni hluti nafnsins, tal, vísar svo í mikilvægi samtalsins í úrlausnum verkefna og viðfangsefna.

Með því að virkja bæði hið stafræna vistkerfi og vistkerfi sérfræðinga geta fyrirtæki og stofnanir í meira mæli einbeitt sér að sinni kjarnastarfsemi líkt og fjölskyldufaðirinn sem minnkar áreiti og álag með því að fá píparann góða í heimsókn.

Birtist í Viðskiptablaðinu 9. janúar 2021.